Sjón og heilsa
Sjón og heilsa
Sjónin er eitt mikilvægasta skilningarvit okkar. Flókin samvinna heilans og augnanna gera það að verkum að við sjáum umhverfið okkar með öllu því sem það hefur uppá að bjóða. Sjónin hefur því ótrúlega mikil áhrif á lífsgæði.
Hér er hægt að lesa um hvernig sjónin virkar, t.d. nærsýni, fjarsýni, augnsjúkdóma og augnþurrk. Einnig er hægt að fræðast um mismunandi glerjatýpur og afspeglanir á glerjum.
Vissir þú að hægt er að sjá betur og gera sem mest úr sjóngæðum með því að velja sérsniðin gler eftir þínum þörfum, eins og gler sem heitir Smartlife individual.
Sjónmæling
Í dag hafa sjóntækjafræðingar á Íslandi leyfi til að sjónmæla fullorðna og börn eldri en 12 ára. Hjá Reykjanes Optikk eru augun skoðuð gaumgæfilega og tekið mið af augnheilsu þinni og samsjón. Sjónin breytist stöðugt með tímanum og mikilvægt er að koma reglulega í augnskoðun til að fylgjast með breytingum á sjón og augnheilsu.
Ef minnstu grunsemdir um augnsjúkdóma eða alvarlegt ástand augnheilsu vakna við augnskoðun sendum við þig til augnlæknis. Annars ráðleggjum við fólki að fara til augnlæknis reglulega til að láta skoða augnbotna með tilliti til augnsjúkdóma. Hvað mælingu á sjón varðar er alltaf best að koma í sjónmælingu til sjóntækjafræðings.
Ef þú ert að upplifa eitthvað að neðangreindu er kominn tími til að kíkja í sjónmælingu:
- Höfuðverk
- Nuddar augun
- Augnþreytu eða spennu í kringum augun
- Eymsli í hnakka
- Ert að blikka oftar en vanalega
- Þokusjón
Við hjá Reykjanes Optikk berum ábyrgð á því að þú sjáir sem allra besti. Endurmenntun setjum við í forgang hvort sem það er innan sjónheilsu, glerja og linsa. Okkur finnst mikilvægt að þú, sem tryggur viðskiptavinur, fáir bestu mögulegu þjónustu hverju sinni.
Hjá okkur færðu faglegar ráðleggingar í sambandi við hvað hentar best fyrir þig og þínar aðstæður. Kíktu endilega við, ef þú hefur spurningar. Okkur finnst allt sem tengist sjón og gleraugnatísku vera skemmtilegt.
Nærsýni (Myopia)
Nærsýnir sjá yfirleitt vel nálægt sér en eiga erfitt með að sjá hluti í fjarlægð skýrt. Þegar nærsýni er ekki leiðrétt með gleraugum eða linsum getur til dæmis verið erfitt að keyra bíl, sjá upp á töflu og horfa á sjónvarp.
Algengustu orsök nærsýni eru að augað er of langt eða hornhimnan of kúpt Þetta gerir það að verkum að fókuspunkturinn fellur fyrir framan sjónhimnu (retina) í augnbotni og því verður myndin óskýr. Nærsýni er leiðrétt með mínus gleri. Mínus gler eru þunn í miðjunni og þykkari í köntunum.
Nærsýni er algengasta sjónvilla í heiminum.
Börn og nærsýni
Nærsýni getur verið arfgeng. Erfðafræðilegir þættir, mikil nærvinna og lítil útivera geta haft áhrif á þróun nærsýninnar. Ef þessi atriði eiga við um ungan einstakling, t.d. barn þá er gott að heyra í okkur til að fá ráðleggingar.
Nærsýni er vaxandi vandamál um allan heim og hefur í för með sér augn-heilsufarsvandamál. Hjá nærsýnum með yfir mínus 5.00 í styrkleika eru auknar líkur á sjónhimnulosi (retinal detachment), skýmyndun á augasteini (cataract), gláku (glaucoma) og kölkun í augnbotni (macula degeneration).
Til að fyrirbyggja aukna þróun á nærsýni fyrir börn hafa rannsóknir síðustu ára gefið til kynna að:
Samkvæmt rannsóknum síðustu ára er möguleiki á að fyrirbyggja aukna þróun á nærsýni hjá börnum með því að:
- minnka nærvinnu (t.d. á síma og tölvuskjá) og auka útiveru (að nota sjónina í meiri farlægð).
- Nota sérstök gler til meðhöndlunar á nærsýni. Rannsóknir hafa sýnt að þessi gler draga úr aukningu á nærsýni í 67% tilfella (borið saman við venjuleg nærsýnisgler)
- Nota snertilinsur sem eru sérhannaðar svipað og glerin sem lýst er hér að ofan, til að meðhöndla nærsýni.
Best er að byrja að fyrirbyggja sem fyrst. Taka þarf mið af aldri, fjölskyldusögu og styrk á nærsýni við val á aðferð.
Fjarsýni (Hyperopia)
Fjarsýnir sjá yfirleitt vel frá sér en geta átt erfitt með að sjá hluti skýrt nálægt sér. Það er þó ekki alltaf jafn augljóst og hjá nærsýnum að um sjónvandamál sé að ræða því augun geta aðlagast og gefið skýra mynd í nálægð. Það reynir þó mikið á augun þegar þau þurfa stöðugt að reyna að bæta upp fyrir fjarsýnina. Höfuðverkur, þreyta og einbeitingarskortur við nærvinnu eru algeng einkenni hjá fjarsýnum.
Orsök fjarsýni eru að augað er of stutt eða hornhimnan of flöt. Þetta gerir það að verkum að fókuspunkturinn fellur fyrir aftan sjónhimnu (retina) í augnbotni og því verður myndin óskýr. Fjarsýni er leiðrétt með plús gleri. Plús gler eru þykk í miðjunni og þynnri í köntunum.
Fjarsýni getur verið arfgeng.
Einkenni hjá fjarsýnum yngri börnum geta verið að detta og rekast á húsgögn. Hjá eldri börnum eru einkenni á við tvísýni, erfiðleika við lestur, erfiðleika við að teikna, lita og skrifa og einbeitingarskortur við alla nærvinnu. Mikilvægt er að láta skoða augun sem fyrst hjá barni þar sem fjarsýni er í fjölskyldusögu til að meðferð geti hafist. Meðferðin þarf að hefjast sem fyrst til að forðast að barnið fái svokallaðan letingja (amblyopi), þá þroskast annað augað (yfirleitt) ekki í takt við hitt og þróar ekki sjóngæði til fullustu. Samkvæmt núverandi reglugerð þarf sjónskoðun á börnum yngri en 12 ára að fara fram hjá augnlækni.
Sjónskekkja (Astigmatism)
Með sjónskekkju virðist letur og hlutir óskýrir að hluta eða beygðir. Þetta á oftast við hvort sem horft er í lengri fjarlægðir eða styttri. Að vera með sjónskekkju útilokar ekki nærsýni eða fjarsýni, öllu heldur sameinast sjónskekkjan öðru hvoru.
Með sjónskekkju er annaðhvort hornhimnan eða augnlinsan ójöfn. Fókuspunkturinn dreifist á 2 staði á augnbotni í staðinn fyrir einn. Við þetta upplifum við að hlutir verða óskýrir bæði nær og fjær því sjónskekkjan er ekki bundin við fjarlægðir. Lítil sjónskekkja gefur ekki nauðsynlega mikla sjónskerðingu en hausverkur er einkenni sem margir kvarta yfir.
Eftir fertugt (Presbyopia)
Augað fer í gegnum aldursbreytingar og eins og allt annað í líkamanum missir augað þennan flotta sveigjanleika. Þessi sveigjanleiki minnkar upp úr fertugu, sjónin versnar við nærvinnu en helst oft óbreytt í lengri fjarlægðir. Áætla má að þessari aldurstengdu breytingu sé lokið upp úr 55-60 ára. Þó getur sjónin haldið áfram að breytast og mikilvægt að láta fylgjast með henni áfram.
Það sem gerist er að augnlinsan sem er staðsett bak við svarta sjónopið verður harðari með auknum aldri og þá minna sveigjanleg. Sveigjanleikinn gerir það að verkum að þegar við erum ung getur augað stillt sig af og séð þannig allar fjarlægðir. Til að einfalda þetta þá verður niðurstaðan líkt og með fjarsýni, fókuspunkturinn fellur fyrir aftan augað þegar um ræðir nærvinnu en á öðrum stað þegar við horfum í aðrar fjarlægðir. Einkenni aldursfjarsýnis eru þau sömu og við venjulega fjarsýni, ss þreyta, þokusjón, höfuðverkur en bundið við nærvinnu. Einnig getur tekið smá tíma að skipta milli fjarlægða.
Til að leiðrétta aldursfjarsýni þarf gleraugu sem henta fyrir fyrirfram ákveðna fjarlægð. Flestir lesa á 40-50 cm fjarlægð og þegar gleraugun eru stillt á þennan styrk miðað við fjarlægð þá óskýrist sjónin í aðrar fjarlægðir. Þess vegna eru margskiptu glerin hentugust fyrir aldursfjarsýni, þá dettur fókuspunkturinn á réttan stað óháð fjarlægð sem horft er á með sömu gleraugunum.
Augnþurrkur
Augnþurrkur er ástand sem flestir upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni. Vanalega veldur augnþurrkur smávægilegum óþægindum en ef um mikinn augnþurrk er að ræða getur hann valdið sviða, kláða, sjóntruflunum og haft áhrif á lífsgæði. Algengt einkenni sem flestir tengja ekki við augnþurrk er aukið táraflæði. Augnþurrkur getur til dæmis verið ástæða þess að það leki mikið af tárum úr augunum í roki eða bara almennt.
Augnþurrkur getur orsakast af mörgum mismunandi þáttum. Til dæmis getur augnþurrkur orðið vegna lítillar framleiðslu á tárum eða af minni framleiðslu af olíu frá fitukirtlum í augnlokum. Tárafilman samanstendur af slími úr slímhúð, vatni úr tárakirtlum og olíu úr fitukirtlum í augnlokum. Tárafilman þarf að vera rétt sett saman til að hún nái að viðhalda raka. Til dæmis gufar tárafilman fyrr upp ef að í hana vantar olíu.
Hættan á að fá augnþurrk eykst með aldrinum vegna þess að það hægist á framleiðsla í tárakirtlum.
Aðrir þættir sem geta valdið augnþurrki eru til dæmis gigtarsjúkdómar, Sjögrens heilkenni, ákveðin lyf, augnsýkingar og vandamál með augnlok, þurrt loft, hormónabreytingar hjá kvenfólki og skjánotkun. Einnig sýna rannsóknir að við blikkum mun sjaldnar en venjulega þegar við horfum á tölvuskjá.
Oftast er augnþurrkur meðhöndlaður með notkun á gervitárum sem seld eru án lyfseðils. Nokkrar gerðir eru til af gervitárum og mismunandi hvaða týpa hentar hverjum . Einnig getur verið gott að nudda augnlokin og nota upphitaða augngrímu sem lögð er á augnlokin. Ef þessar aðferðir nægja ekki skal ráðfæra sig við augnlækni.
Algengir augnsjúkdómar
Gláka er augnsjúkdómur sem leiðir til skemmda á sjóntauginni. Sjóntaugin tengir augað við heilan. Ómeðhöndluð gláka getur valdið varanlegri sjónskerðingu.
Enn er ekki vitað um nákvæm orsök gláku en vitað er að hækkaður augnþrýstingur er stór áhættuþáttur. Augað framleiðir vökva til að viðhalda lögun þess og veita því næringu. Þegar flæði á vökvanum skerðist og vökvinn safnast upp í auganu myndast augnþrýstingur sem getur skemmt taugafrumur sjóntaugarinnar sem veldur sjónskerðingu. Aðrir áhættuþættir eru til dæmis sykursýki, fjölskyldusaga um gláku, hækkaður aldur og mikil nærsýni.
Gláka getur bæði þróast hægt og komið skyndilega. Algengara er að gláka þróist hægt og kemur hún yfirleitt ekki fram fyrr en eftir fertugt. Þessi tegund af gláku er oft einkennalaus á byrjunarstigi. Sjóntaugin skemmist hægt og bítandi og sjónsviðið þrengist eftir því sem sjúkdómurinn þróast. Sjónsviðinu er oft líkt við að horfa í gegnum rör en ef sjúkdómurinn er ómeðhöndlaður getur miðjusjónin einnig tapast.
Bráðagláka er mun sjaldgæfari. Einkenni bráðagláku geta verið skyndilega aukinn og sársaukafullur þrýstingur í auga, sjónskerðing, höfuðverkur, litaðir hringir í kringum ljósgjafa og almenn vanlíðan með uppköstum. Mikilvægt er að bregðast hratt við þessum einkennum og leita til augnlæknis eða á bráðamóttöku.
Meðferðir sem augnlæknar bjóða upp á eru augndropar sem draga úr augnþrýstingi, lasermeðferðir og skurðaðgerðir. Algengasta meðhöndlunin eru augndropar. Mikilvægt er að greina gláku á frumstigi þar sem ekki er hægt að gera við skemmdir sem þegar hafa orðið. Hægt er að lágmarka varanlegan sjónskaða ef gláka er greind og meðhöndluð snemma. Þess vegna er mikilvægt að fara í augnskoðun og láta sjónmæla sig reglulega. Ef grunur leikur á gláku í sjónmælingu hjá okkur vísum við þér til augnlæknis til frekari skoðunar.
AMD eða hrörnun í augnbotnum er aldurstengdur sjúkdómur sem hefur áhrif á miðjusjónina. Mikilvægt svæði sjónhimnunnar hrörnar og skerðir lestrarsjón og sjónskerpu. Erfitt getur t.d. verið að þekkja andlit og lesa texta í bók. Sjúkdómurinn sést oft fyrst í kringum sextugt og er ein algengasta orsök lögblindu hjá eldri borgurum. Orsakir augnbotnahrörnunar eru ekki þekktar en helsti áhættuþátturinn eru reykingar ásamt hækkandi aldri, fjölskyldusaga og hár blóðþrýstingur. Sjúkdómurinn skiptist í tvo meginflokka, þurra og vota hrörnun í augnbotnum.
Þurr hrörnun í augnbotnum er algengari. Úrgangsefni safnast upp undir sjónhimnu og mynda litla gulleita bletti. Þú getur verið með þessa bletti í mörg ár án þess að það hafi áhrif á sjónina. Eftir því sem blettirnir verða fleiri og stærri versnar ástandið og leiðir til hrörnunar sjónhimnu og sjónskerðingar. Ekki er til nein lækning við þurri augnbotnahrörnun en ef sjúkdómurinn greinist snemma er hægt að fá leiðbeiningar um lífsstílsþætti sem geta hjálpað við að fyrirbyggja eða seinka sjónskerðingu.
Við vota hrörnun í augnbotnum leka æðar í vefjalaginu fyrir neðan sjónhimnu. Þetta gerist vegna hraðrar nýæðamyndunar og veldur bjúg og blæðingum. Einkennin eru sjónskerðing sem gerist hratt og aflögun á sjón þannig að beinar línur virðast bognar. Hættan á að fá vota augnbotnahrörnun er stærri ef þurr augnbotnahrörnun er nú þegar til staðar. Mikilvægt er að meðhöndla sjúkdóminn sem fyrst til að fyrirbyggja og lágmarka sjónskerðingu. Meðferðarmöguleikar eru leysimeðferð, lyfi sprautað inn í glerhlaupið og skurðaðgerð.
Ský á auga (cataract) nefnist ástandið þegar að augasteinninn er ekki lengur tær heldur skyggður og við það skerðist sjónin. Ástandið nær yfir allar gráður skýjaðra augasteina sem takmarka að einhverju leyti ljósleið inn í sjónhimnu augans og gefur þar af leiðandi þokukennda sjón. Ský á auga kemur oftast fram í báðum augum en getur þó verið mismikið. Sjúkdómurinn getur birst á öllum aldri en er algengastur hjá eldra fólki.
Enginn sársauki fylgir skýi á auga en meðal einkenna eru þokukennd sjón, skert litaskyn, tvísýni, ljósfælni og aukin nærsýni.
Helstu orsök sjúkdómsins er hækkandi aldur en aðrir áhrifavaldar eru t.d. reykingar, sykursýki, útfjólubláir geislar sólarinnar, ákveðin lyf og fyrrum augnskaði.
Meðferð við skýi á augasteini er aðgerð þar sem augasteinninn er fjarlægður og gervi augasteinn settur í staðinn. Aðgerðin er þó ekki gerð fyrr en sjónskerðing fer að hafa veruleg áhrif á daglegt líf, t.d. við akstur og lestur.
Augnbotna vandamál tengd sykursýki
Sykursýki er algeng orsök sjónvandamála vegna þess að sjúkdómurinn getur haft slæm áhrif á háræðarnar í auganu sem skaðar sjónhimnuna og þar af leiðandi sjónina. Algengasti augnsjúkdómurinn er diabetic retinopathy. Diabetic retinopathy er sjúkdómur í sjónhimnu sem getur leitt til verulegrar sjónskerðingar og jafnvel blindu ef hann er ekki meðhöndlaður. Þess vegna er mikilvægt að vera í reglubundnu eftirliti hjá augnlækni.
Hár blóðsykur (illa meðhöndluð sykursýki), hátt kólesteról og reykingar auka hættuna á sjúkdómnum. Helstu einkennin eru minnkuð sjónskerpa, þokukennd sjón, skert litaskyn og bjöguð sjón.
Í reglulegum skoðunum hjá augnlækni er fylgst með breytingum í augnbotnum og oft hægt að greina sjúkdóminn áður en hann fer að valda sjónskerðingu. Ef meðferð er hafin á fyrstu stigum sjúkdómsins getur hún fyrirbyggt skaða á sjóninni. Meðferðarmöguleikar eru lasermeðferð, lyfjameðferðir og skurðaðgerð.
Sjónhimnulos/glerhlaupslos
Sjónhimnulos er alvarlegur augnsjúkdómur sem mikilvægt er að bregðast hratt við.
Sjónhimnan er þunn himna sem klæðir augað að innan. Í sjónhimnunni eru frumur sem bregðast við ljósi. Þegar ljós berst að sjónhimnu myndast taugaboð og þau eru send áfram til heilans sem myndar myndina af því sem horft er á. Við sjónhimnulos losnar sjónhimnan frá sinni eðlilegu staðsetningu og ef hún fellur ekki fljótt aftur á sinn stað getur það valdið varanlegri sjónskerðingu.
Sjónhimnan getur m.a. losnað vegna rýrnunar á glerhlaupi inn í auganu, mikillar nærsýni, högg á augað, fyrri augnaðgerða eða í tengslum við sykursýki.
Einkenni við sjónhimnulos geta verið ljósblossar í sjónsviði, skyndilegar og fleiri flygsur í sjónsviði, dökkur skuggi á jaðri sjónsviðsins og skyndileg sjónskerðing. Mikilvægt er að bregðast hratt við þessum einkennum og fá viðeigandi meðferð hjá augnlækni ef um sjónhimnulos er að ræða.
Val á meðferð við sjónhimnulosi fer eftir því hvar himnan hefur losnað frá og hversu mikið. Meðferðarmöguleikar eru m.a. lasermeðferð og aðgerð.