Opið alla virka daga frá kl. 10-18 og á laugardögum frá kl. 11-15

   420-0077  Aðalgata 60, 230 Reykjanesbær

Linsur

Linsur

Snertilinsur veita frelsi til þess að sjá vel án gleraugna. Það eru margir kostir við linsunotkun. Linsur gefa þér breiðara sjónsvæði heldur en gleraugu og hafa ekki áhrif á útlit þitt. Með linsum getur þú hreyft þig vandræðalaust án þess að hafa áhyggjur af því að gleraugun hreyfist til og móða komi á glerin. Gaman er líka að nota mismunandi sólgleraugu án styrks með linsunum.

Snertilinsur eru ekki allar eins. Það eru til linsur fyrir mismunandi styrkleika og kúptleika á auganu. Linsur geta verið mismunandi eftir efni sem notað er í þær, hversu lengi þær mega vera í notkun og hversu miklu súrefni þær hleypa í gegnum sig.

Við hjálpum þér að finna réttu linsurnar sem henta þér og þínum þörfum.

Daglinsur

Daglinsur eru einnota linsur sem þú hendir eftir daginn. Með notkun daglinsa færðu nýjar og ferskar linsur á hverjum degi og sleppur við að hreinsa þær.

Daglinsur henta bæði þeim sem nota linsur daglega og þeim sem nota linsur sjaldnar.

Mánaðarlinsur

Mánaðarlinsur eru notaðar eins og daglinsur en í staðinn fyrir að henda þeim eftir daginn eru þær hreinsaðar, lagðar í linsuvökva yfir nóttina og notaðar aftur daginn eftir. Hægt er að nota sömu linsurnar í allt að 30 daga.

Mánaðarlinsur henta þeim sem nota linsur daglega og eru oft aðeins ódýrari kostur en daglinsur.

Sjónskekkju linsur

Sjónskekkja þarf ekki að koma í veg fyrir að þú getir notað linsur. Sjónskekkju linsur leiðrétta nærsýni og fjarsýni ásamt sjónskekkju. Linsurnar eru fáanlegar upp í hærri styrkleika en flesta grunar.

Sjónskekkju linsur fást bæði sem daglinsur og mánaðarlinsur.

Margskiptar linsur

Margskiptar linsur leiðrétta aldurstengda fjarsýni. Í linsunum eru fleiri en einn styrkleiki sem gerir það að verkum að þú sérð vel með þeim þegar þú horfir langt frá þér og nálægt þér. Margskiptar linsur eru flóknari en einfaldar linsur og tekur aðeins lengri tíma að venjast þeim.

Margskiptar linsur fást bæði sem daglinsur og mánaðarlinsur.

Linsumátun

Ef þig langar að prófa linsur er fyrsta skrefið að panta tíma í linsumátun. Í linsumátun er tekin sjónmæling, augun skoðuð vel og vandlega með smásjá og kúptleiki á hornhimnu mældur. Réttu linsurnar miðast við þessar mælingar og samtal við þig um þínar þarfir. Þér er svo kennt hvernig á að meðhöndla linsurnar, setja þær í og taka þær úr.

 

 

Leiðbeiningar um notkun linsa

Að setja linsu í auga

 1. Þrífa hendurnar vel og þurrka þær.
 2. Opna linsuboxið og taka linsuna varlega úr með vísifingri.
 3. Athuga hvort að linsan snúi rétt. Linsa er óþægileg í auganu og oft ekki sömu sjóngæði ef hún snýr öfug.
 4. Leggðu linsuna fremst á vísifingur eða löngutöng og dragðu neðra augnlokið varlega niður með löngutöng eða baugfingri. Haltu efra augnlokinu opnu með hinni hendinni.
 5. Horfðu inn að nefi eða örlítið upp á við, (samt þannig að þú sjáir það sem þú ert að gera í speglinum). Leggðu linsuna á augað og reyndu að blikka ekki. Þegar linsan er komin á augað skaltu hreyfa augað í allar áttir og loka auganu varlega, blikkaðu svo nokkrum sinnum.

Mundu að hreinsa linsuna með linsuvökva inn á milli ef þú þarft nokkrar tilraunir til þess að setja linsuna í.

 

Að taka linsu úr auga 

 1. Þrífa hendurnar vel og þurrka þær.
 2. Dragðu neðra augnlokið niður með löngutöng og horfðu örlítið upp, eða inn að nefi. Dragðu linsuna varlega af augasteininum með vísifingri.
 3. Haltu blikkinu stöðugu og klemmdu linsuna varlega á milli þumalfingurs og vísifingurs og taktu hana úr auganu.
 4. Ef þetta er mánaðarlinsa þá hreinsaru hana með linsuvökva og leggur hana linsubox. Ef þetta er daglinsa þá hendiru henni í ruslið.

 

Atriði sem þarf að hafa í huga 

 1. Vendu þig á að skoða augun í þér á hverjum morgni. Athugaðu hvort að augun séu eðlileg á litin. Ef augun eru óvenju rauð er betra að nota gleraugu og sleppa linsum i nokkra daga eða þangað til augun eru orðin eðlileg aftur. 
 2. Gott er að nota augndropa með linsunum ef augun eru þurr.
 3. Aldrei má nota venjulegt vatn til að skola eða hreinsa linsur. Notið einungis linsuvökva.
 4. Settu linsurnar í þig áður en þú setur á þig augnfarða og taktu þær úr áður en þú fjarlægir augnfarðann.
 5. Aldrei sofa með linsur nema þú sért að nota linsur sem eru sérstaklega ætlaðar til þess.
 6. Mikilvægt er að eiga gleraugu sem hægt er að nota þegar þú þarft að hvíla þig á linsunum. Til dæmis ef þú ert með augnsýkingu, rauð augu eða tekur ákveðin lyf sem hafa áhrif á augnheilsuna. 
 7. Við mælum með því að koma í linsuskoðun einu sinni á ári. Mikilvægt er að fylgjast með augnheilsu þegar linsur eru notaðar. Styrkleiki getur breyst og mikilvægt er að hafa styrkleikann í linsunum réttann. Vinnuaðstaða og lífsstíll getur einnig tekið breytingum sem getur kallað á breytta linsutýpu.

 

Endilega hafðu samband við okkur ef grunur leikur á um augnsýkingu. Við metum hvort þurfi að láta augnlækni meðhöndla. 

Börn & linsunotkun

Oft er spurt hvort börn megi nota linsur. Svarið er já, engin spurning og felst oft mikið frelsi í því að vera gleraugnalaus á æfingum. Auðvitað er álitamál hvenær barn hefur þroska til að læra að hugsa um linsur, þar sem hreinlæti er lykilþáttur. Ef gætt er vel að hreinlæti eru linsur góður kostur. Mælt er með að byrja fyrst um sinn að nota linsur einungis á íþróttaæfingum eða hluta úr degi fyrir börn yngri en 15 ára.
Ný og glæsileg gleraugnaverslun í Reykjanesbæ. Starfsfólk okkar tekur hlýlega á móti þér

Um okkur

Fylgdu okkur

Póstlisti

Allur réttur áskilinn © 2023 | Vefur hannnaður af Alpha – Online Business Akademían

Close